Saga Eflingar
Saga Eflingar stéttarfélags

Stofnun Eflingar og sameiningar
Efling stéttarfélag var stofnað í desember 1998 og tók til starfa um áramótin 1999. Félagið varð til við sameiningu Dagsbrúnar og Framsóknar stéttarfélags við Starfsmannafélagið Sókn og Félag starfsfólks í veitingahúsum.
Árið eftir sameinaðist Eflingu Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, og þann 1. janúar 2009 sameinaðist Verkalýðs- og sjómannafélagið Boðinn Eflingu. Sameiningarnar fjölguðu félagsfólki, efldu félagið og stækkuðu starfssvæði þess verulega.
Rætur Eflingar – Dagsbrún og upphaf verkalýðshreyfingar á Íslandi
Rætur Eflingar ná allt til ársins 1906 þegar elsti forveri félagsins, Verkamannafélagið Dagsbrún, var stofnað í Reykjavík. Það markaði tímamót, því í fyrsta sinn skipulögðu almennir verkamenn sig í samtök til að verja hagsmuni sína.
Um áratugaskeið var Dagsbrún eitt öflugasta og fjölmennasta verkalýðsfélag landsins. Margvíslegar félagslegar umbætur og réttindi launafólks á síðustu öld má rekja til baráttu félagsins, í samstarfi við önnur stéttarfélög og Alþýðusamband Íslands.
Undirbúningur að stofnun Dagsbrúnar hófst í lok árs 1905 og á stofnfundinum í janúar 1906 gengu 384 verkamenn í félagið. Í stofnskrá þess sagði meðal annars:
„Vér, sem ritum nöfn vor hér undir ákveðum hér með að stofna félag með oss, er vér nefnum: Verkamannafélagið Dagsbrún.
Mark og mið þessa félags á að vera:
- Að styrkja og efla hag og atvinnu félagsmanna.
- Að koma á betra skipulagi að því er alla daglaunavinnu snertir.
- Að takmarka vinnu á öllum sunnu- og helgidögum.
- Að auka menningu og bróðurlegan samhug innan félagsins.
- Að styrkja þá félagsmenn eftir megni, sem verða fyrir slysum eða öðrum óhöppum.“
Árið 1913 stóð Dagsbrún fyrir fyrstu verkfallsaðgerðunum í Reykjavík. Þær leiddu til mikils árangurs: tíu stunda vinnudagur var innleiddur og atvinnurekendur viðurkenndu Dagsbrún sem lögmætan samningsaðila verkamanna.
Fyrsti formaður Dagsbrúnar var
Sigurður Sigurðsson ráðunautur. Meðal annarra áhrifamestu formanna voru
Héðinn Valdimarsson, þingmaður Alþýðuflokksins og síðar Sósíalistaflokksins, sem gegndi formennsku í 15 ár á fjórum aðskildum tímabilum (1922–1941),
Eðvarð Sigurðsson, þingmaður Alþýðubandalagsins og formaður frá 1961 til 1982, og
Guðmundur J. Guðmundsson (Guðmundur Jaki) sem leiddi félagið 1982–1996.
Verkakvennafélagið Framsókn
Verkakvennafélagið Framsókn var stofnað í Reykjavík í október 1914 af 68 konum úr Kvenréttindafélagi Íslands. Áður hafði verið borin upp tillaga um að stofna sérstaka kvennadeild innan Dagsbrúnar, en hún hlaut ekki brautargengi.
Á stofnfundinum var Jónína Jónatansdóttir, helsti hvatamaður að stofnun félagsins, kjörin formaður og gegndi embættinu fyrstu tvo áratugina. Í stjórn félagsins sátu einnig konur á borð við Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, bæjarfulltrúa í Reykjavík og útgefanda Kvennablaðsins, sem varð fyrsta konan sem bauð sig fram til Alþingis.
Í fyrstu lögum félagsins sagði:
„Að styðja og efla hagsmuni og atvinnu félagskvenna.
Að koma betra skipulagi á alla daglaunavinnu þeirra.
Að takmarka vinnu á öllum helgidögum.
Að efla menningu og samhug félagsins.“
Framsókn barðist fyrir bættum kjörum verkakvenna sem unnu við hlið karla en fengu verr greitt. Þrátt fyrir mótstöðu atvinnurekenda náði félagið sífellt meiri árangri, m.a. í launahækkunum, styttingu vinnudags og viðurkenningu á kaffitíma. Framsókn barðist einnig fyrir jöfnum launum kynjanna — baráttu sem setti varanlegt mark á verkalýðshreyfinguna.
Aðeins fimm konur sátu á formannsstóli félagsins til sameiningarinnar við Dagsbrún árið 1998. Eftir Jónínu tók við Jóhanna Egilsdóttir, bæjarfulltrúi og síðar varaþingkona, sem gegndi formennsku í 27 ár (1935–1962). Síðasti formaður var Ragna Bergmann (1982–1998).
Starfsmannastúlknafélagið Sókn
Starfsmannastúlknafélagið Sókn var stofnað 20. júlí 1934. Stofnfélagar voru 26 talsins, en ári síðar voru þær orðnar 56. Fyrsti formaður var Aðalheiður Hólm, þá aðeins 18 ára gömul.
Í Verkalýðsblaðinu 5. nóvember 1935 segir:
„Starfsstúlknafél. ‘Sókn’, sem ekki er nema rúmlega ársgamalt, hefir á þessum stutta tíma tekizt að hækka launin á ríkisspítölunum all verulega og nú með þessum samningi bætt kjör þessara stúlkna að miklum mun.“
Sókn gekk í Alþýðusamband Íslands 18. júní 1935. Þá voru félagakonur um 80, flestar starfsstúlkur á sjúkrahúsum og heimilum í Reykjavík.
Árið 1960 voru grunnlaun Sóknarstúlkna 3.211,25 krónur á mánuði, sem jafngildir um 144.000 krónum á verðlagi ársins 2025. Í erindi Margrétar Auðunsdóttur, formanns félagsins, á aðalfundi í janúar 1960 sagði hún:
„Okkur er sagt að við lifum um efni fram og eyðum of miklu. Vildu nú ekki þessir góðu hagfræðingar ríkisstjórnarinnar reikna út hvað stúlka sem langar til að ganga sæmilega vel klædd og skemmta sér eitthvað á að spara á þessu kaup? Ríkisstjórnin gæti hjálpað þeim og sagt þeim hvað konur og dætur valdhafanna eyða í fatnað.“
Árið 1977 breytti félagið um nafn og varð að
Starfsmannafélaginu Sókn.
Félag starfsfólks í veitingahúsum
Félagið var stofnað árið 1950. Aðalheiður Hólm, fyrrverandi formaður Sóknar, lýsti stofnun þess svo í viðtali við Vinnuna 1. nóvember 1985:
„Þær unnu margar á vöktum og ég man að ég kom einu sinni í herbergi vestur í bæ þar sem stúlkurnar skiptust á að sofa og hvíla sig – þær urðu að deila herberginu og rúmfletum á þennan hátt. Það var erfitt að komast í samband við þessar stúlkur og þær voru flestar hræddar. Ég og Jón Rafnsson heitinn gengum um bæinn á kvöldin og hittum stúlkurnar, gengum inn á alla kaffistaði og fengum okkur límonaði og sættum færis að spjalla við stúlkurnar. Á Hótel Borg var erfitt að nálgast fólkið, en við náðum leynilegum fundi með starfsfólkinu á herbergi, sem vinur Jóns hafði þá á leigu.“
Félagið var stofnað skömmu síðar og varð mikilvægur þátttakandi í baráttu fyrir réttindum þjónustufólks í veitingahúsum og gististöðum.
Iðja – félag verksmiðjufólks
Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, var stofnað 18. október 1934, í miðri heimskreppu. Stofnfélagar voru 36, og fyrsti formaður var Runólfur Pétursson.
Í sögu Alþýðusambands Íslands segir að sumir atvinnurekendur hafi neitað að viðurkenna félagið. Björn Bjarnason, síðar forystumaður Iðju, lýsir viðbrögðum félaganna:
„Þessu var svarað þannig að við hreinlega tókum hús af fyrirtækinu. Bárum starfsfólkið út á götu og umkringdum húsið með góðri aðstoð atvinnulausra verkamanna. [...] Þetta varð til þess að eigendur fyrirtækisins gengu til samninga við okkur strax eftir hádegi sama dag.“
Verkalýðs- og sjómannafélagið Boðinn
Verkalýðs- og sjómannafélagið Boðinn átti rætur að rekja til eldri verkalýðsfélaga á Suðurlandi, m.a. Smábænda- og verkalýðsfélags Ölfushrepps, sem árið 1939 taldi 30 félagsmenn. Boðinn starfaði á svæði sem náði yfir Þorlákshöfn, Hveragerði og nágrannasveitir og tók virkan þátt í verkalýðsbaráttu svæðisins.
Frá og með
1. janúar 2009 sameinaðist Boðinn Eflingu-stéttarfélagi.
Efling í dag
Við stofnun árið 1998 voru um 14.000 félagsmenn í Eflingu. Árið 2024 greiddu 36.000 manns til félagsins, sem gerir það að öðru stærsta stéttarfélagi landsins og langstærsta félagi verkafólks á Íslandi.
Helstu viðsemjendur félagsins eru Samtök atvinnulífsins, Reykjavíkurborg, Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Launanefnd sveitarfélaga.
Félagið rekur marga sjóði sem standa undir félagsstarfi og þjónustu við félagsfólk, m.a. sjúkrasjóð, vinnudeilusjóð, orlofssjóð og félagssjóð.
Fyrsti formaður Eflingar var Halldór Björnsson (1998–2000). Honum fylgdi Sigurður Bessason, sem gegndi formennsku til ársins 2018. Sólveig Anna Jónsdóttir tók við embættinu árið 2018 og var endurkjörin árið 2022.
Í stjórn Eflingar sitja 15 stjórnarmenn, í trúnaðarráði 130 fulltrúar, og hver sjóður félagsins er stjórnaður af fimm manna stjórn.
