Tilgangur og markmið

barátta eflingar fyrir réttlæti og bættum kjörum

Tilgangur og markmið eflingar

Íslenskur vinnumarkaður hefur mótast af baráttu stéttarfélaga fyrir réttlæti og bættum kjörum launafólks. Í meira en heila öld hafa stéttarfélögin staðið í fremstu víglínu gagnvart atvinnurekendum og krafist þess að vinnandi fólk njóti mannsæmandi launa, öryggis og réttinda. Sú barátta hefur skilað verulegum árangri, meðal annars með styttingu vinnuvikunnar, auknum veikindarétti, orlofi, fæðingarorlofi, lífeyrissjóðum og fjölmörgum félagslegum umbótum sem nú teljast sjálfsagðar.


Stéttarfélögin hafa ekki aðeins sótt fram á vinnumarkaði heldur líka í samfélaginu öllu. Þau hafa verið drifkraftur jöfnuðar og félagslegra framfara á Íslandi, staðið vörð um velferðarkerfið og tekið þátt í að byggja upp réttlátara þjóðfélag þar sem rödd launafólks hefur áhrif. Baráttan hefur ætíð snúist um meira en krónur og aura, hún hefur líka snúist um reisn, virðingu og rétt allra til að lifa mannsæmandi lífi af eigin launum.


Efling stéttarfélag er í dag eitt stærsta og öflugasta stéttarfélag landsins. Eflingarfélagar bera uppi íslenskt samfélag, þeir sinna grunnstoðum þess, vinna við umönnun, ræstingu, ferðaþjónustu, þjónustu auk fjölda annarra starfa verkafólks. Þetta eru störf sem halda samfélaginu gangandi en hafa lengi verið vanmetin og vangreidd. Efling berst fyrir réttlæti, jöfnuði og sanngjarnri hlutdeild félagsmanna sinna í verðmætasköpun samfélagsins.


Í með baráttu sinni, kjarasamningsgerð, félagslegum aðgerðum og öflugri þátttöku í opinberri umræðu hefur Efling sýnt að stéttarfélög eru ekki aðeins varnarþing verkafólks heldur líka afl til sóknar og breytinga. Með félagslegri samstöðu hefur félagið knúið fram kjarabætur, aukið öryggi á vinnustöðum og þrýst á um samfélagslega ábyrgð.


Baráttan heldur áfram. Efling stendur með félagsfólki sínu í því að byggja upp réttlátan vinnumarkað þar sem hver og einn getur lifað af launum sínum með reisn, og samfélag þar sem jöfnuður og réttindi allra eru leiðarljós. Með samstöðu og baráttuafli mun Efling halda áfram að vera í fararbroddi félagslegra umbóta á Íslandi.