Vertu með
í félagslegu starfi Eflingar

Vertu með
í félagslegu starfi Eflingar!
Í Eflingu er stór hópur virkra félagsmanna sem leggja sitt af mörkum á fjölbreyttan hátt til að efla og styðja við hag félagsmanna. Þessi hópur er lykillinn að þeim góða árangri sem Efling hefur náð á síðustu árum og ætlar að halda áfram að ná.
Við hvetjum þig til að ganga til liðs við okkur og verða hluti af frábærum hópi virkra félagsmanna! Virk þátttaka í félagslegu starfi stendur öllum félagsmönnum opin og þar eru öll velkomin óháð uppruna.
Hvernig getur
þú tekið þátt?
Trúnaðarmenn
Trúnaðarmenn gegna mjög mikilvægu hlutverki í starfi Eflingar og félagið leggur mikla áherslu á að fjölga þeim, sem og að veita þeim öfluga fræðslu, þjálfun og stuðning. Samkvæmt kjarasamningum geta Eflingarfélagar á öllum vinnustöðum með 5 eða fleiri félagsmenn valið sér trúnaðarmann.
Trúnaðarmaður er tengiliður Eflingarfélaga á vinnustað við stéttarfélagið þeirra. Hlutverk hans er að gæta þess að farið sé eftir kjarasamningum og að lög og réttindi séu virt, og að aðstoða félagsmenn á sínum vinnustað við úrlausn réttindamála þegar við á. Trúnaðarmaðurinn miðlar upplýsingum frá félaginu til félagsmanna, og upplýsir félagið um stöðu mála á sínum vinnustað eftir því sem þörf krefur.
Trúnaðarmenn sækja mánaðarleg heils dags námskeið á tímabilinu september til maí. Þar fer fram metnaðarfullt fræðslustarf sem er krefjandi en á sama tíma gefandi og líflegt. Tungumál námskeiðanna eru enska og íslenska.
Einu kröfurnar sem gerðar eru til trúnaðarmanns eru að hann sé félagsmaður í Eflingu, gegni ekki stöðu yfirmanns með vald til að reka/ráða aðra Eflingarfélaga og hafi hlotið umboð vinnufélaga sinna með staðfestum hætti.
Ef þú vilt verða trúnaðarmaður eða aðstoða við að láta skipa trúnaðarmann á þínum vinnustað getur þú skoðað nánari upplýsingar hér.
Fjallað er um störf og skipun trúnaðarmanna í sérstakri
reglugerð sem stjórn félagsins hefur sett.
Trúnaðarráð
Trúnaðarráð fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli félagsfunda. Í því sitja 130 félagsmenn, þar á meðal félagsstjórn. Kjörtímabil trúnaðarráðs er tvö ár, frá 1. janúar á oddatöluári og til loka almanaksársins þar á eftir.
Fundir trúnaðarráðs eru haldnir einu sinni í mánuði yfir vetrartímann.
Fjallað er nánar um trúnaðarráð í 15. og 26. gr. laga félagsins og er skipun ráðsins oftast byggð á tillögu uppstillingarnefndar. Kosning fer fram í nóvember á seinna skipunarári fráfarandi trúnaðarráðs.
Þegar líða fer að kosningu nýs trúnaðarráðs er auglýsing jafnan send í tölvupósti á alla félagsmenn, auglýst á vefsíðu og hugsanlega einnig á öðrum samfélagsmiðlum félagsins. Í þessari auglýsingu er félagsmönnum boðið að tilnefna sig.
Seta í trúnaðarráði er frábær leið til að setja sig inn í málefni félagsins og verða virkur meðlimur. Á fundum ráðsins er reglulega fjallað um stöðu kjaramála og málefni sem til umræðu eru á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar. Formaður stýrir fundum og stundum er gestum boðið að flytja þar erindi. Ávallt er boðið upp á opnar umræður og frjálst að taka upp hvaða mál sem er undir liðnum „Önnur mál.“
Mánaðarlegir fundir ráðsins eru jafnan haldnir í félagsheimili Eflingar klukkan 18 á fimmtudögum. Húsið opnar hálftíma fyrr og boðið er upp á hressingu. Fundir eru túlkaðir milli íslensku og ensku og leitast við að hafa efni sem kynnt er þýtt á bæði íslensku og ensku. Sjá núverandi trúnaðarráð og fundargerðir hér.
Einu skilyrðin sem félagsmenn þurfa að uppfylla til að geta boðið sig fram í trúnaðarráð er að vera fullgildur félagsmaður. Félagsmenn verða sjálfkrafa fullgildir eftir að hafa greitt til félagsins í 6 mánuði, hafi þeir ekki óskað annars. Hægt er að sjá á persónublaði á Mínum síðum hvort félagsmaður hefur öðlast fullgildingu eða ekki. Sjá mynd:

Félagsstjórn og aðrar stjórnir og nefndir
Félagsmenn Eflingar hafa mikil og bein áhrif á notkun félagsfjár og framkvæmd starfsemi með setu í stjórnum sjóða og fastanefndum félagsins. Þessar stjórnir eru lykillinn að því að tryggja að réttindi félagsmanna séu ávallt í fyrirrúmi.
Stjórn Eflingar
Stjórn Eflingar sér um yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Hún ber sameiginlega ábyrgð á fjárreiðum félagsins og eignum þess. Stjórnarfundir eru að jafnaði haldnir mánaðarlega.
Stjórnin er skipuð 15 stjórnarmönnum: formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og 11 meðstjórnendum. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár og fer kosning fram árlega.
Til að tryggja stöðugleika í forystu eru 7 stjórnarmenn kosnir í einu til tveggja ára á víxl. Formaður er kosinn til tveggja ára í senn og fer kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga fram árlega, eigi síðar en fyrir lok mars.
Í félaginu starfar fimm manna uppstillingarnefnd sem gerir tillögur um frambjóðendur til stjórnar og skoðunarmenn reikninga. Við val skal gætt jafnræðis milli kynja og starfsgreina.
Allir fullgildir félagsmenn í Eflingu teljast kjörgengir til trúnaðarstarfa innan félagsins.
Listi uppstillingarnefndar (A-listi) liggur frammi á skrifstofu félagsins 8 dögum fyrir kjördag. Öðrum framboðslistum má skila til kjörstjórnar eigi síðar en 7 sólarhringum fyrir kjördag. Hverjum lista verða að fylgja meðmæli 120 fullgildra félagsmanna.
Kosning stjórnar er skrifleg og leynileg og fer fram á kjörfundi eða með almennri leynilegri póstatkvæðagreiðslu. Félagsmenn kjósa á milli þeirra framboðslista sem eru í kjöri.
Nánari ákvæði um kjörgengi, framboð og kosningu má finna í VI. kafla laga Eflingar.
Aðrar stjórnir og nefndir
Stjórnir sjóða Eflingar, þar á meðal Sjúkrasjóður, Orlofssjóður, Vinnudeilusjóður og Fræðslusjóður, ásamt öllum fastanefndum, eru að jafnaði kjörnar af trúnaðarráði félagsins og teljast allir fullgildir félagsmenn kjörgengir. Á þessu ábyrgðarsviði er ákveðið hvaða styrkir eru veittir, hvernig orlofshúsaframboðinu er háttað og hvernig fræðslu er beitt. Stjórnir sjóðanna bera þannig ábyrgð á framkvæmd þeirra reglna sem sjóðunum er settar.
Dæmi um kjörnar nefndir og stjórnir eru:
- Uppstillingarnefnd sem undirbýr framboð til stjórnar Eflingar.
- Kjörstjórn sem annast um stjórn allsherjaratkvæðagreiðslna og kosninga.
- Starfsmenntasjóðir sem reknir eru í samvinnu við sveitarfélög, eins og Reykjavíkurborg.
Fulltrúaráð Gildis
Fulltrúaráð Gildis lífeyrissjóðs hefur mikilvægu hlutverki að gegna í málefnum sjóðsins. Fulltrúaráðið er skipað jöfnum höndum fulltrúum samtaka launamanna og atvinnurekenda sem standa að sjóðnum. Stéttarfélög sem eiga aðild að sjóðnum, þar á meðal Efling stéttarfélag, tilnefna samtals 80 fulltrúa til setu í ráðinu. Fjöldi fulltrúa hvers félags, og þar með Eflingar, er ákvarðaður annað hvert ár og fer eftir vægi iðgjaldsgreiðslna félagsmanna til sjóðsins.
Hlutverk fulltrúa Eflingar í fulltrúaráði er að fara með atkvæði á ársfundi Gildis og öðrum fundum, í umboði Eflingar. Á fundum fulltrúaráðs eru rædd málefni sjóðsins og lykiltölur úr afkomu kynntar. Einnig er það hlutverk ráðsins að staðfesta tilnefningar á fulltrúum sjóðfélaga til stjórnar sjóðsins, að kjósa fulltrúa í nefndir sjóðsins, þar á meðal tilnefningarnefnd sjóðfélaga sem undirbýr framboð í stjórn Gildis. Að ákveða starfskjarastefnu og laun stjórnarmanna.
Til að tryggja að sjóðfélagar Eflingar eigi sterka rödd í stjórnun Gildis er mikilvægt að sem flestir fullgildir félagsmenn séu reiðubúnir að láta til sín taka en allir fullgildir félagsmenn Eflingar sem uppfylla kjörgengisskilyrði hafa tækifæri til að tilnefna sig til setu í fulltrúaráðinu og hafa þannig bein áhrif á framtíð lífeyrisréttinda sinna.
Um fulltrúaráð Gildis er fjallað í samþykktum sjóðsins
hér.
Seta á þingum Alþýðusambandsins
Þing Alþýðusambandsins (ASÍ) fer með æðsta vald í málefnum sambandsins. Það er haldið á tveggja ára fresti og er vettvangur þar sem kjör forseta og miðstjórnar ASÍ fara fram. Auk þess eru lagabreytingar og ályktanir um stefnu sambandsins teknar fyrir á þinginu.
Hvert aðildarfélag ASÍ á rétt á að senda fulltrúa á þing sambandsins og fer fjöldi fulltrúa eftir stærð félagsins. Alls koma þrjú hundruð fulltrúar launafólks af öllu landinu saman til að móta stefnu og starfsáætlun heildarsamtakanna og velja þeim forystu.
Allir fullgildir félagsmenn í Eflingu fá tækifæri til að tilnefna sig til setu á þingi ASÍ og hafa þannig bein áhrif á framtíð verkalýðshreyfingarinnar. Uppstillinganefnd sér um að raða í þingsæti út frá tilnefningum og leggja undir trúnaðarráð sem sér um að samþykkja listann.
Samninganefndir
Samninganefndir Eflingar eru skipaðar félagsfólki og hafa það mikilvæga hlutverk að leiða kjaraviðræður félagsins. Auglýst er eftir félagsfólki í samninganefndir þegar kjarasamningar verða lausir og þær starfa þar til samningar nást. Formaður Eflingar er formaður í samninganefndum. Félagið leggur áherslu á að samninganefndir séu stórar og að störf þeirra séu opin og gagnsæ gagnvart félagsfólki.
Hlutverk samninganefnda er að koma fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga og hafa þær víðtækt umboð. Nefndir sitja samningafundi við viðsemjendur en halda einnig sína eigin fundi sem formaður boðar til og stjórnar. Seta í nefndum felur í sér talsverða vinnu en nefndarmenn geta átt rétt á að sitja fundi án launataps frá atvinnurekanda. Fjallað er um hlutverk samninganefnda í lögum Eflingar og í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.
Fylgstu vel með auglýsingum félagsins um tilnefningar og kosningar á heimasíðu Eflingar og í tölvupósti. Til að tryggja að þú missir ekki af neinu er mikilvægt að fylla út persónuspjaldið á Mínum síðum með netfangi og símanúmeri.
Hafðu samband ef frekari spurningar vakna á
felagsmal@efling.is.
